sunnudagur, mars 11

Hugrenningar um listhandverk


leirbolli, upphafleg mynd frá Salvor.

Ég er að lesa grein frá 13. okt. 2001 eftir Sören í Morgunblaðinu. Sören vitnar í listamann sem segir : "Sérkenni fegurðarinnar í nytjamunum er nándin (intemacy). Þar sem nytjamunir eru hluti af daglegu lífi okkar verður þessi nánd okkur nauðsynleg." - Soetsu Yanagi.

Sören segir frá þeim tíma þegar leirkerasmiðir í Danmörku bjuggu til sinn eigin leir: "Leirinn er gömlu leirkerasmiðunum heilagur hlutur og hann skyldi helst mjög gamall - þroskaður (líkt og gamall ostur) eins og það hét hjá gömlu leirkerasmiðunum í Danmörku, er unnu með rauð- eða bláleir sem þeir grófu úr jörðu. Leirinn var lagður í leirgröf í nánd við verkstæðið og geymdur þar í mörg ár. Sagan segir hafa verið til siðs að kasta vatni á leirinn þar sem þvagsýran gerir hann betri meðferðar - þjálli. Góðum dönskum vini mínum, sem skrifað hefur margar bækur um leirlist og leirvinnsluaðferðir, var fyrir mörgum árum boðið í heimsókn til þekkts Raku-meistara í Japan. Meistarinn var að vinna með leir sem grafinn hafði verið úr leirgröf fjölskyldunnar og vinur minn spurði hann: "Þegar þú gerir þinn eigin leir - hvenær er hann þá tilbúinn til notkunar?" Rakumeistarinn svaraði: "Ég nota ekki minn eigin leir - heldur barnabarn. Leirinn sem ég nota var unninn af afa mínum."

Hann talar um mótun, rennslu og glerungsgerð. Glerungur þarf að passa við leirinn, þarf að geta hreyfst með í brennslu og það eru margir möguleikar á skreytingum t.d. undir- og yfirglerjungslitir, leirlitir, málmsölt .

Svo talar hann um brennslu:
"Brennsla postulíns er vandasömust, þar sem postulínið á helst að vera þunnt og hálfgegnsætt - eitt af aðalsmerkjum þessarar leirtegundar. Vandinn er sá að við brennsluna - oft nær 1.320-1.350°C - verður postulínið mjúkt og krefst því að notuð séu stuðningsform sem kemur í veg fyrir að leirinn falli saman. Iðulega eru bollar brenndir á haus svo þeir verði ekki skakkir og þannig má lengi telja. Svo finnast einnig fleiri brennsluaðferðir og þar með mismunandi ofnar. Ein gerðin er kolaofninn sem Guðmundur frá Miðdal notaði á sínum tíma, en er sjaldan notaður

Eldiviðarofninn býður upp á spennandi vinnuferli, brennir miklum viði, en á móti kemur að mögulegt er að gera ótrúlega hluti í slíkum ofni. Ef ekki er ætlunin að fá svokallaðan öskuglerjung á gripina er nauðsynlegt að brenna þá í leirköppum, þar sem sálf viðaraskan sest á yfirborðið og myndar glerjung.

Gasofnar eru mikið notaðir enda góðir og einfaldir í notkun. Aðalkostur gasofnsins er sá að auðvelt er að breyta ferli brennslunnar, t.d. að brenna í afoxandi lofti (mikið gas - lítið súrefni) og hafa þannig áhrif á lit glerjungsins - jafnvel breyta honum í andstæðu sína. Þetta á sér stað varðandi hinn fræga Uxablóðsglerjung, en hann er fenginn með því að brenna koparglerjung - sem alla jafna verður grænn í rafofni - þannig að hann verður blóðrauður í afoxandi brennslu. Mér hefur verið sagt, að járnglerjungur sem brenndur var afoxandi í tvær vikur hafi orðið dökkblár, en verður annars rauðbrúnn í rafofni, sannarlega spennandi heimur.

."

Engin ummæli: