Nemandi minn Ásdís Guðjónsdóttir gerði vefinn LEIR árið 2005. Ásdís er listamaður og vefurinn er afar fallegur og fróðlegur, þar eru til dæmis sérstök síða um sögu leirlistar á Íslandi, allt frá Guðmundi frá Miðdal til Koggu. Mér fannst gaman að rifja upp sögu leirsmiðjunnar Funa. Móðir mín vann um tíma í Funa og ég á einn leirbolla sem hún gerði þar. Svo á ég einhvers staðar mynd af starfsfólkinu í Funa í vinnuklæðum við leirmunina. Á þeim myndum er einnig Ásta skáldkona en hún vann í Funa á sama tíma og móðir mín Ásta.
Það er gaman að spá í hvað saga leirlistar á Íslandi er samofin hverfinu mínu og hverfi bernsku minnar Laugarnesinu, Gestur og Sigrún bjuggu hérna í nágrenninnu og leirverkstæði þeirra hét Laugarnesleir og svo býr Kogga að ég best veit ennþá í Laugarnesfjörunni þar sem braggahverfi bernsku minnar stóð.
Ég fann síðu um sýningu leirlistakonunnar Steinunnar Marteinsdóttur f. 1934. Steinunn bjó á Hulduhólum í Mosfellssveit og hérna er vefurinn Hulduholar.com sem fjallar ítarlega um list Steinunnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli